Leiðarljós Kyrrðarbænasamtakanna ásamt skýringum
eftir Thomas Keating
Mismunur er á náðargjöfum en andinn er hinn sami, mismunur er á þjónustustörfum en Drottinn hinn sami. Mismunur er á framkvæmdum en Guð hinn sami sem öllu kemur til leiðar í öllum.
1. Kor. 12. 4-6
1. Kyrrðarbænarsamtökin (Contemplative Outreach) eru samfélag í þróun með stöðugt stækkandi sjóndeildarhring og dýpri áherslu á iðkun kyrrðarbænarinnar í takt við breytilegar þarfir kristinna bænaiðkenda.
Sem samfélag eru Kyrrðarbænarsamtökin lifandi heild, samtengd og í kraftmiklu innbyrðis samspili. Þeim er í mun að starfa án yfirbyggingar og eru hugsuð til þess að breiða út Kyrrðarbænina og framtíðarsýn hennar sem víðast.
2. Kennsluaðferð Kyrrðarbænarinnar samanstendur af fjórum þáttum, og þeim hugtökum sem búa þeim að baki, eins og þeim er lýst í bæklingnum um Kyrrðarbænina.
Kyrrðarbænarsamtökin bjóða upp á fleira en Kyrrðarbænina eina. Þetta er ýmislegt efni sem er til þess fallið að gera ávexti bænarinnar sýnilega í daglegu lífi en eru ekki hluti af sjálfri kennsluaðferðinni. Viðbótarefni eins og bækur, myndbönd og greinar eru ekki hluti af kennslunni en veita góðan stuðning á bænavegferðinni.
3. Við breiðum út Kyrrðarbænina með því að höfða til innri aðlöðunar fremur en með eiginlegu trúboði.
Með því að iðka Kyrrðarbænina verðum við færari um að sýna auðmýkt og að hlusta á aðra af einlægni. Við bjóðum upp á Kyrrðarbænina, og þau hugtök sem búa henni að baki, á mildan hátt og forðumst stífar reglur og að reyna að snúa fólki til ákveðinnar trúar.
4. Þau sem eru í þjónustuhlutverkum taka það venjulega að sér í sjálfboðavinnu. En við ráðum starfsfólk eftir þörfum.
Við treystum á hið mikla örlæti þeirra sem þjóna samtökunum og inna af hendi ótölulegan fjölda verkefna án þóknunar. Við bjóðum fólki að þjóna samfélaginu á þann hátt sem best hæfir köllun þess og hæfni. Öll þau sem þjóna leitast við að gera það í samhljómi við þarfir alls samfélagsins, hvort heldur er um að ræða einstaklinga, litla bænahópa eða stærri deildir samtakanna. Það getur komið til þess að við ráðum starfsfólk eða verktaka með sérkunnáttu ef þörf krefur.
5. Öll þau sem inna af hendi þjónustu við samtökin gera það með tilliti til ábyrgðar sinnar á fjölskyldu sinni og starfi, sem eiga að vera í fyrsta sæti.
Þau sem taka að sér forystuhlutverk verða fyrst að vega og meta persónulega hagi og ábyrgð á fjölskyldu og starfsskyldum.
6. Kyrrðarbænarsamtökin forðast skuldsetningu og að eiga fasteignir til þess að geta beint öllum fjármunum í að breiða út þá gjöf sem Kyrrðarbænin er.
Kyrrðarbænarsamtökin forðast skuldsetningu og að eiga fasteignir. Það er vegna þess að slíkt getur verið byrði á þeim sem eru í forystu og vilja helga eins miklum tíma og mögulegt er til að sinna andlegri velferð og breytilegum þörfum samfélagsins.
7. Við tökum ákvarðanir í gegnum bæn og yfirvegun og stefnum að sameiginlegri niðurstöðu. Þetta á sérstaklega við um mikilvægar ákvarðanir.
Með þessari aðferð við ákvarðanatöku er þó ekki gert ráð fyrir því að einróma niðurstaða náist heldur er mikilvægt að allir meðlimir hópsins fái tækifæri til að tjá sig. Ef einróma niðurstaða fæst ekki í hópnum, og meðal þeirra sem málið varðar með beinum hætti, ræður einfaldur meirihluti.
8. Við erum í samstarfi við kirkjuyfirvöld á hverjum stað en leitumst ekki við að verða trúarleg stofnun eða leikmannastofnum.
Kyrrðarbænarsamtökin eru hugsuð til að gera kristnum samfélögum Kyrrðarbænina aðgengilega í því augnamiði að glæða enn frekar sameiginlegan hugleiðsluarf okkar.
9. Kyrrðarbænarsamtökin standa ekki með einum málstað frekar en öðrum eða skipta sér af opinberum álitamálum, hvort heldur trúarlegum, pólitískum eða félagslegum. Það er gert í því augnamiði að samtökin séu öllum aðgengileg. Sem óbreyttir einstaklingar breytum við samkvæmt samvisku okkar.
Við forðumst að vera á bandi einhverra eða að skipta okkur af opinberum álitamálum vegna þess að slíkt gæti fælt fólk sem aðhyllist mismunandi skoðanir frá Kyrrðarbænarsamtökunum. Markmið okkar er að gera Kyrrðarbænina öllum aðgengilega án þess að vera í liði með einum fremur en öðrum.
10. Við erum í andlegu sambandi við Benediktaklaustrið í Snowmass í Colorado í Bandaríkjunum.
Benediktaklaustrið í Snowmass, Colorado er andlegt heimili okkar, staður hvíldar og endurnýjunar. Þar öðlumst við gjarnan nýja sýn á það sem varðar andlega vegferð okkar.
Nína Leósdóttir þýddi í tilefni af fyrstu ráðstefnu Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, þann 29. febrúar 2020.