Kristin íhugun

Kristin íhugun er regnhlífarhugtak yfir fornar og nýjar íhugunar- og bænaaðferðir innan kristinnar hefðar.

Íhugun var þáttur í andlegri iðkun og uppbyggingu kristinna manna frá upphafi. Frá því á 17. öld tapaðist hún að nokkru úr vitund fólks en á 20. öld var farið að vinna að því að endurheimta þennan dýrmæta arf.

Kyrrðarbæn

Kyrrðarbæn er bænaaðferð sem fer fram í þögn. Í henni opnast hugur og hjarta, öll vera okkar, fyrir Guði handan hugsana, orða og tilfinninga. Fyrir tilstilli náðar Guðs opnum við vitund okkar fyrir honum sem við vitum, fyrir trú, að er hið innra með okkur, nær okkur en andardráttur okkar, nær en hugsun, nær en sjálf vitund okkar.

Biblíuleg íhugun

Biblíuleg íhugun er ævagömul aðferð við að biðja yfir textum ritningarinnar. Í Biblíulegri íhugun er hlustað á ritningarversin með hjartanu líkt og við ættum í samtali við Guð þar sem hann legði til umræðuefnið. Með þessari bænaaðferð leyfum við orðinu að móta okkur og verða hluti af okkur sjálfum.

Biblíuleg íhugun gengur út á lestur biblíunnar með bæn að leiðarljósi

Fagnaðarbæn

Fagnaðarbænin er aðferð til að samþykkja nærveru og verkan Guðs í líkamlegum og tilfinningalegum viðbrögðum okkar gagnvart atburðum og aðstæðum í daglegu lífi. Tilgangur Fagnaðarbænarinnar er að dýpka samband okkar við Guð með því að játast honum í hversdagslegum athöfnum okkar – að gefast Guði í dagsins önn.

Ummæli

Ég komst í kynni við Kyrrðarbæn ( Centering Prayer) vorið 2008 þegar ég var í Skálholti á kyrrðardögum. Þar hafði þá verið námskeið alla vikuna um þessa bæn og munkur frá Bandaríkjunum William Meninger hafði verið að kynna bænina þar. Þegar við vorum að setja okkur inn í kyrrðina (þögnina) á föstudagskvöldinu kom Meninger og kynnti okkur lauslega þessa bænaraðferð. Í stuttu máli, ég kolféll fyrir bæninni. Þegar kyrrðardagar voru búnir fór ég heim og gúgglaði. Las og las. Leist æ betur á.

Margrét Guðjónsdóttir, bókasafnsfræðingur

Ég er þeirrar skoðunar að „Centering prayer“ gæti orðið íslenskri kirkju árangursrík aðferð til að opna almenningi nýjar leiðir að bæninni og skilningi á mikilvægi hennar fyrir andlegt líf þjóðarinnar. Þessi aðferð, sem greinilega byggir á rótgróinni þekkingu á sálarlífi hins venjulega manns, gæti opnað ýmsar leiðir til að auka og efla stöðu kirkjunnar og Guðstrúar í landinu. Bænin er betri og virkari sáluhjálp en nokkur önnur þekkt aðferð í mannheimum. Og það sem meira er, hún tryggir þá lífsnauðsynlegu sambúð, sem við þurfum að eiga með Guði. Svo kostar hún ekkert nema iðkun, aga og nokkra tugi mínútna dag hvern.

Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður

Bænahópar

Á Íslandi eru starfandi nokkrir bænahópar sem sérstaklega notast við aðferðir kristinnar íhugunar. Smelltu hér fyrir neðan til þess að fá upplýsingar um staðsetningu og tímasetningar.