Home/Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi/Sýn samtakanna/Guðfræðileg meginatriði ásamt skýringum

Guðfræðileg meginatriði ásamt skýringum

eftir Thomas Keating

Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.
Lúk 10. 27

Við fögnum umbreytingarferlinu í Kristi, fyrir tilstilli Kyrrðarbænarinnar, bæði í sjálfum okkur og öðrum.

1. Kyrrðarbænarsamtökin (e. Contemplative Outreach) er tengslanet samfélaga og einstaklinga sem leita innblásturs og handleiðslu Heilags anda og leitast við að leggja sitt af mörkum til þess að gæða hina kristnu íhuganarhefð nýju lífi með því að ástunda Kyrrðarbænina.

Tilgangur Kyrrðarbænarinnar og Kyrrðarbænarsamtakanna er fyrst og fremst að dýpka þekkinguna á, og reynsluna af, kærleika Guðs í vitund fólks. Kyrrðarbænarsamtökin veita grundvallar leiðsögn í Kyrrðarbæninni og bjóða upp á margvíslegt efni að auki til að styðja við íhugunarþroskann og umbreytingarferlið.

2. Ástundun Kyrrðarbænarinnar er lykillinn að því að tilheyra þessari hreyfingu.

Dagleg ástundun Kyrrðarbænarinnar er kjarni þess að tilheyra samfélaginu.

3. Guðfræðilegur grundvöllur Kyrrðarbænarinnar er nærvera Guðs í sérhverri manneskju.

Nærvera Guðs í okkur er sístæð gjöf hans í sérhverri manneskju. Orð Guðs og uppspretta allrar sköpunar viðheldur öllu sem er og snertir hverja manneskju á persónulegan hátt. Andinn kallar okkur fyrst og fremst til þess að játast þessu persónulega sambandi.

4. Að samþykkja nærveru Guðs og verk hans hið innra með okkur er það sem Kyrrðarbænin snýst um.

Að bregðast við kalli Andans jafngildir því að samþykkja nærveru Guðs og verk hans hið innra með okkur og það umbreytingarferli sem Andinn kemur til leiðar. En það gerir okkur kleift að vera þátttakendur í eðli Guðs og verða ein fjölskylda í Kristi.

5. Hin stöðuga nærvera Guðs innra með okkur staðfestir að við mennirnir erum góð í eðli okkar. Þetta er tjáð til fullnustu í kenningunni um heilaga þrenningu.

Nærvera Guðs hið innra með okkur starfar með tvennum hætti. Í fyrsta lagi minnir hún okkur á að við erum sköpuð úr engu í mynd og líkingu Guðs. Þessi trú staðfestir grundvallar gæsku sem streymir frá þeirri gjöf sem lífið er. Í öðru lagi læknar hún þau sár í mennsku okkar sem stafa af frumstæðum þáttum í vitundinni. Eðlislægar þarfir okkar hafa enn ekki sameinast skynsemi okkar að öllu leyti en það er hún sem gerir okkur kleift að hugsa óhlutbundið, hafa frjálsan vilja og að sýna öðrum hluttekningu. Andlegur þroski er fólginn í því lækningaferli sem Guð kemur til leiðar í okkur fyrir tilstilli þeirrar nándar sem verður til í bæninni og með því að fylgja fordæmi og kenningum Jesú.

6. Verk Guðs hið innra með okkur er fólgið í því lækningaferli sem umbreytingin í Kristi er. Í gegnum þá umbreytingu finnum við hvernig hið nána samband við Guð dýpkar stöðugt og að umhyggja fyrir öðrum í verki er ávöxtur þessa sambands.

Lækningaferlið felur í sér hreinsun falska sjálfsins og eigingjarnra hvata sem stafa af eðlislægum þörfum úr frumbernsku en einnig vegna skilyrðinga í menningunni. Hreinsunin er fólgin í vaxandi frelsi frá ráðríki meðvitaðra og ómeðvitaðra hvata egósins og hins falska sjálfs. Þetta gerist með því að kærleiki Guðs streymir í okkur en það er forsenda lækningaferlisins. Hreinsunin leiðir til innra frelsis til að elska. Það gerist í gegnum sanna sjálfsþekkingu og virkjun gjafa og ávaxta Andans.

7. Þau hugtök sem liggja til grundvallar Kyrrðarbæninni byggja undir og styðja við þá vaxandi þögn og kyrrð sem einkennir hugleiðsluna.

Til þess að öðlast góða fótfestu í þeim hugtökum sem búa að baki Kyrrðarbæninni hvetjum við byrjendur til að skoða myndbönd um Andlegu vegferðina og að lesa vel bækurnar Vakandi hugur – vökult hjarta, Invitation to Love og Intimacy with God. Þar er að finna samantekt á kristinni hugleiðsluhefð í tengslum við nútíma sálarfræði og spekihefðir annarra trúarbragða.

8. Við hvetjum til þess að íhuga orð Guðs með því að leggja stund á Biblíulega íhugun (Lectio Divina), sér í lagi þann þátt sem beinist að hugleiðslu. En ástundun Kyrrðarbænarinnar flýtir fyrir því ferli.

Hið hefðbundna hugtak yfir umþenkingu um ritningarnar, og aðra helga texta, er Biblíuleg íhugun (Lectio Divina). Að leggja stund á þessa aðferð (með því að lesa, íhuga og bregðast við, sem aftur leiðir til þess að hvíla í Guði) hjálpar til við að sleppa tökunum af hugsunum okkar í Kyrrðarbæninni.

9. Við trúum því að hin kristna hugleiðsluhefð, og þjónustan sem hún leiðir af sér, sé grundvöllur undir einingu kristinna manna.

Kristin hugleiðsla er grundvölluð á ritningunum og helstu mystikerum kristinnar hefðar. Hugleiðsluarfur okkar sameinar fólk í kristnum kirkjudeildum sem deila sömu skírn, trú á lifandi Krist og trausti á Guði.

10. Við erum mótuð af þeirri kirkjudeild sem við tilheyrum en um leið erum við tengd traustum böndum vegna reynslu okkar af Kristi í Kyrrðarbæninni og í daglegu lífi okkar.

Kyrrðarbænin nær út yfir það sem greinir kirkjudeildir að en tengir okkur saman í þögn vegna vaxandi reynslu okkar af að vera eitt með Kristi.

11. Við stöndum með hugleiðsluvídd annarra trúarbragða og helgra hefða.

Sameinuð í sameiginlegri leit okkar að Guði, virðum við önnur trúarbrögð og helgar hefðir og iðkendur þeirra. Við tökum þátt í samkirkjulegu samtali og samtali milli ólíkra trúarbragða og stöndum saman á sviði félagslegs réttlætis, vistfræði og frumkvæðis að hugleiðslu.

12. Ástundun Kyrrðarbænarinnar gerir okkur meðvitaðri um einingu allrar sköpunar og samhygð okkar með öllu mannkyni.

Kyrrðarbænin vekur okkur til stöðugt vaxandi umhyggju fyrir öðrum, ekki síst þeim sem fátækir eru, yfirgefnir eða sæta allra handa misbeitingu í skeytingarleysi samtímans. Okkur stendur til boða að gera þá gjöf sem Kyrrðarbænin er aðgengilega öllum, ekki hvað síst þeim sem eru þurfandi og jaðarsettir í samfélaginu. Kyrrðarbænin auðveldar okkur einnig að bregðast við nærveru Guðs í öllum mönnum og sköpuninni allri.

13. Sem lærisveinar Jesú, kappkostum við að sýna gott fordæmi í anda þjónustu, mannkærleika og einingar.

Forystuhlutverk eru hverju samfélagi nauðsynleg. Með því að fylgja fordæmi og kenningum Jesú leitumst við við að veita forystu á þjónandi hátt og með því að lifa venjulegu lífi af óvenjulegum kærleika. Hinn æðsti kærleikur er meiri venjulegum kærleik. Hin æðsta manngæska er meiri en venjuleg manngæska. Hún er fólgin í því að við elskum hvert annað eins og Jesús elskaði okkur. Það er að segja með öllum okkar göllum, takmörkunum og á stundum yfirgengilegri hegðun. Hún snýst um að fyrirgefa allt og öllum af heilu hjarta og það á líka við um okkur sjálf. Þetta er vegurinn að einingu.

14. Hið góða sem Kyrrðarbænarsamtökin koma til leiðar er frá Guði komið.

Að starfa í náð er að eiga þátt í að skapa og endurleysa heiminn með Kristi, allt frá upphafi uns allt verður fullkomnað. Og um leið er umbreytingin í Kristi náðarsamleg gjöf Heilags anda og uppsprettu alls þess góða sem Guð getur komið til leiðar gegnum okkur.

Nína Leósdóttir þýddi í tilefni af fyrstu ráðstefnu Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, þann 29. febrúar 2020.