Áhugafélag um eflingu Kyrrðarbænar (Centering prayer) sem ber heitið Contemplative Outreach á Íslandi var stofnað í Guðríðarkirkju í Grafarholti 2. maí síðastliðinn (2013)

Félagið er að fyrirmynd og í samstarfi við alþjóðleg samtök í Bandaríkjunum sem kallast Contemplative Outreach Ltd (www.contemplativeoutreach.org) og eru samtök sjálfboðaliða sem hafa það hlutverk að stuðla að útbreiðslu Kyrrðarbænar og kristinnar íhugunar um allan heim. Stofnendur samtakanna voru Thomas Keating, William Meninger og Basil Pennington og eiga þau 30 ára starfsafmæli á næsta ári (2014).

Kyrrðarbænin er eitt einfaldasta form íhugunarbænar sem um getur og geta allir lært það og stundað. Tilgangur Kyrrðarbænarinnar er að dýpka sambandið við Guð með því að játast nærveru og verkan Guðs hið innra í daglegu lífi. Bænin byggir á orðlausri nálgun við Guð og þjálfunin felst síðan í því að læra að leiða hjá sér truflanir sem sækja á, þann tíma sem bænin stendur yfir.

Stjórn Contemplative Outreach á Íslandi 2013

Segja má að skipulögð iðkun Kyrrðarbænarinnar hafi í raun ekki hafist á Íslandi fyrr en árið 2008 en þá var stofnaður stýrihópur um útbreiðslu og eflingu bænarinnar. Ýmsir erlendir aðilar höfðu þó komið til Ísland fyrir þann tíma og kynnt bænina. Má í því sambandi nefna að bæði Thomas Keating og William Meninger upphafsmenn bænaiðkunarinnar, hafa komið til Íslands, kynnt bænina og haldið kyrrðardaga í Skálholti. Stýrihópurinn hefur á síðustu árum verið ötull við að halda kynningar á Kyrrðarbæninni og annarri iðkun tengdri henni. Má þar nefna lengri og skemmri kyrrðardaga í Skálholti og styttri kyrrðardaga, kynningar og námskeið í ýmsum kirkjum landsins. Hópurinn hefur einnig staðið fyrir námskeiði fyrir leiðbeinendur og komu tveir þaulreyndir kennarar frá Bandaríkjunum til Íslands síðastliðið haust (2012) til að hafa umsjón með því.

Iðkunin hefur smátt og smátt eflst í landinu og í dag (2013) eru starfandi 7 bænahópar á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og á Akureyri sem hittast vikulega og eru þeir öllum opnir. Hóparnir eru í Guðríðarkirkju í Grafarholti, Dómkirkjunni í Reykjavík, Grensáskirkju, Lágafellskirkju, Selfosskirkju, Stórólfshvolskirkju á Hvolsvelli og í kapellu sjúkrahússins á Akureyri. Allir hóparnir bjóða upp á kennslu fyrir byrjendur. Þá má einnig geta þess að Kyrrðarbæninni hefur verið vel tekið í tengslum við tólfsporastarfið enda fjallar 11. sporið um að styrkja sambandið við Guð mðe hugleiðslu og bæn.

Samkvæmt lögum hins nýstofnaða félags er tilgangur Contemplative Outreach á Íslandi að skapa samfélag um Kyrrðarbænina, að stuðla að útbreiðslu bænarinnar, bjóða upp á kyrrðardaga, lesefni og stuðning við iðkendur bænarinnar. Megináherslan verður því á kynningu, kennslu og miðlun upplýsinga. Í þeim tilgangi heldur félagið úti heimasíðu á veffanginu www.kristinihugun.is þar sem hægt er að nálgast allar helstu upplýsingar um bænina, starfandi bænahópa, námskeið og kyrrðardaga sem bjóðast bæði hér heima og erlendis. Á heimasíðunni er einnig að finna ýmis konar fróðleik, greinar, myndbönd og hljóðupptökur um ýmsar bænaaðferðir tengdar kristinni íhugun.

Þá er mikil eftirvænting eftir útgáfu bókar Thomasar Keating Vakandi hugur – vökult hjarta (e. Open mind – open heart) í þýðingu Nínu Leósdóttur sem kemur út hjá Skáholtsútgáfu nú í haust (2013). Sú bók Keating er nokkurs konar grundvallarrit fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér og stunda Kyrrðarbænina og kemur útgáfa hennar til með að verða mikil lyftstöng fyrir iðkun hér á landi.

Þau sem iðka Kyrrðarbænina eru sammála um að hún sé umbreytandi ferli sem hefur áhrif á allt líf þess sem iðkar hana. Hún dýpkar trú og traust á Guði, eykur kærleika og frið hið innra og leiðir viðkomandi til dýpri skilnings á Guði, sjálfum sér og umhverfi sínu. Er það eitthvað sem þú þráir í þitt líf? Vertu vekomin/n í hópana og á heimasíðuna.

Arndís G. Bernhardsdóttir Linn,
formaður stjórnar Contemplative Outreach á Íslandi. 

Grein í Bjarma, 2. tbl 2013.