„Við erum í andlegu sambandi við

Benediktaklaustrið í Snowmass í Colorado í Bandaríkjunum.

Benediktaklaustrið í Snowmass, Colorado er andlegt heimili okkar, staður hvíldar og endurnýjunar. Þar öðlumst við gjarnan nýja sýn á það sem varðar andlega vegferð okkar.“

(Sýn Kyrrðarbænasamtakanna, 10. grein).

 

Klaustrið og kyrrðarsetrið í Snowmass, Colorado er einstakt. Náttúrufegurðin og kyrrðin er engu lík enda er hvorki farsímasamband né netsamband á þessum helga stað. Kyrrðarbænaiðkendur hafa komið víðs vegar að til að sækja þar kyrrðardaga og þar á meðal Íslendingar. Ég var svo lánsöm að fá að dvelja þar í 10 daga í takti við klausturlífið í september 2022 og sú reynsla var engu lík.

Auðmýkt munkanna, hollusta þeirra, tíðasöngur og bænagjörð snerti djúpt við mér. Að hugleiða í þögn í nokkrar klukkustundir á dag varð til þess að varnirnar sem ég held uppi dagsdaglega féllu og það var magnað að horfa í berskjöldun í augun á dádýrum á förnum vegi, upp í stjörnubjartan himininn (en þarna er ekki ljósmengun), og að hlusta sléttuúlfana ýlfra fyrir utan þegar við sátum í hugleiðslu við sólarupprás. Nú eru sjö mánuðir liðnir síðan ég var í Snowmass og ég verð enn vör við áhrifin af þessari alltumvefjandi andlegu reynslu.

Nú eru blikur á lofti um framtíð Snowmass þar sem Contemplative Outreach hafa haldið kyrrðardaga í fjölda ára en Thomas Keating stofnandi samtakanna og einn helsti kennari Kyrrðarbænarinnar var einmitt munkur í Benediktaklaustrinu þar. Sögusagnir eru á þann veg að búið sé að selja staðinn (það hefur þó ekki verið staðfest) og ljóst er að Contemplative Outreach mun ekki halda áfram að sjá um kyrrðardaga þar.

Það heyrir til undantekninga að fólk gangi í klaustur í dag en köllunin til að tileinka líf sitt íhugun, hugleiðslu og bæn kviknar enn í brjósti fólks. Thomas Keating áttaði sig á þessu og virðist hafa séð fyrir þá þróun að það myndi fækka í klaustrunum en einmitt þess vegna var honum mikið í mun að kenna bænaaðferðirnar sem tíðkast þar og að leiðbeina almenningi við að hlúa að þessari köllun í amstri daglegs lífs utan klausturveggjanna.

Thomas Keating sagði að þögnin væri fyrsta tungumál Guðs og að annað væri léleg þýðing. Hann lagði áherslu á að draga sig í hlé til hvílast og endurnýjast og öðlast nýja sýn á andlegu vegferðina en það er einmitt tilgangur kyrrðardaga. Í nútímanum má hafa talsvert fyrir því að finna staði þar sem njóta má kyrrðar. Hljóðmengunin er mikil sem getur haft slæm áhrif í för með sér því að ekkert er eins endurnærandi og veitir okkur eins mikla hvíld og þögnin.

Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi hafa átt griðarstað í Skálholti í rúmlega 10 ár en þar eru einnig blikur á lofti. Með nýjum áherslum er kyrrðarstarfi settar þröngar skorður í Skálholti sem hefur leitt til þess að samtökin hafa leitað annað með kyrrðarstarf sitt.

Ég get ekki neitað því að alls kyns tilfinningar gera vart við sig við þessar breytingar bæði í Snowmass og í Skálholti. Áhyggjur, reiði og sorg hafa mætt óboðnar í heimsókn og þá er gott að hafa lagt á sig að tileinka sér hinar ýmsu bænaaðferðir og sleppa tökunum í Kyrrðarbæninni og umvefja augnablikið eins og það er í Fagnaðarbæninni.

Í tilkynningu frá Contemplative Outreach nú í dymbilvikunni kemur fram að Kyrrðarbænin berst nú vítt og breitt sem aldrei fyrr og þar megi m.a. þakka tækninni sem við fórum í auknum mæli að nýta okkur í heimsfaraldrinum, hollustu kyrrðarbænaiðkenda við daglega ástundun bænarinnar og atorku sjálfboðaliða sem hafa orðið fyrir umbreytandi áhrifum hennar vegna.

Ég bið um áframhaldandi blessun yfir bæði Snowmass og Skálholti full þakklætis fyrir þær dýrmætu stundir sem ég hef átt þar og hvet kyrrðarbænaiðkendur hér á landi að setja traust sitt á Guð sem gerir alla hluti nýja.

Bylgja Dís Gunnarsdóttir, formaður Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi.