KYRRÐARDAGAR Á LÖNGUMÝRI

Kyrrðardagar eru mikilvægur þáttur í starfsemi Kyrrðarbænasamtakanna. Um rúmlega tíu ára skeið hafa kyrrðardagar farið fram einu sinni til tvisvar á ári í Skálholti í umsjá Sigurbjargar Þorgrímsdóttur og Arndísar G. Bernhardsdóttur Linn og auk þess hafa farið nokkrum sinnum fram Kyrrðardagar í borg eða bæ.

Dagana 11.-16. maí 2022 sótti 17 manna hópur Kyrrðardaga á Löngumýri í Skagafirði en það er í fyrsta skipti sem kyrrðardagar á vegum Kyrrðarbænasamtakanna fara þar fram. Ragnheiður Jónsdóttir skipulagði kyrrðardagana að þessu sinni og fékk hún Wojciech Drazek frá Póllandi til liðs við sig. Wojciech veitti viðtöl, var með stuttar hugvekjur og sá um altarisgöngu í íhugunarþeli.

Allir þátttakendur höfðu reynslu af því að dvelja í þögn áður og voru vanir kyrrðarbænariðkendur. Þögnin var einstök og umhverfi Löngumýrar stutti vel við hana. Starfsfólk Löngumýrar tók hópnum afar vel og veitti þjónustu af mikilli alúð.

Djúpstæð tenging myndaðist á milli þátttakanda í þögninni handan orða. Kyrrðarbænin var iðkuð þrisvar sinnum á dag 2×30 mínútur í senn með gönguíhugun á milli. Fyrir hátíðarkvöldmat á sunnudeginum var þögnin rofin, fólk deildi upplifun sinn og höfðu allir verið djúpt snortnir af nærveru Guðs.

Fyrir hönd Kyrrðarbænasamtakanna þakka ég Ragnheiði Jónsdóttur, Wojciech Drazek, starfsfólki Löngumýrar og þátttakendum öllum.

Bylgja Dís Gunnarsdóttir.

Formaður Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi.