Kynningarfundur með Penny Warren frá Englandi – Grensáskirkju 2. maí kl. 19:30 -21:30.

Penny Warren er í leiðtogahópi samtakanna The Community of Aidan and Hilda sem tengjast eyjunni Lindisfarne. Þessi samtök eru dæmi um hreyfingar í nútímanum sem nýta tengslanet fólks til að styrkja kristið trúarlíf með hjálp gamalla klaustrahefða.

Penny kemur til Íslands til að taka þátt í móti í Skálholti 4.-9. maí. Það er á vegum evrópskra samtaka (Spiritual Directors in Europe) sem tengjast andlegri fylgd – gamalli hefð í kristni sem gengið hefur endurnýjun lífdaga frá því á síðari hluta 20. aldar. Penny mun því einnig fjalla um andlega fylgd.

Penny Warren gegnir leiðtogahlutverki (Members’ Guardian) í samtökunum the Community of Aidan and Hilda, sem er nútíma klausturlífishreyfing og sækir innblástur til keltneskra helgra manna.  Hún hefur reglulega leitt kyrrðardvalir og kyrrðardaga.  Penny er andlegur fylgdarmaður og sálufélagi (soul friend) og kennir reglulega um líf í ljósi trúar (spirituality), bænina og um að byggja upp reglulegt bænalíf – innan biskupdæmis síns og víðar.

Penny sækir næringu og styrk í keltnesku kristnun hefðina, kirkjufeðurna og -mæðurnar og er innblásin af Guði sem er heilög þrenning og hvernig það mótar sýn okkar á sköpunina alla og leiðir okkur inn á brautir samhygðar, réttlætis og friðar.

Penny hefur iðkað hugleiðslubæn (contemplative way of prayer) mest alla ævi sína og notið andlegrar fylgdar hjá vísu fólki frá því hún var hálf þrítug.  Hún er gift Martin og þau eiga börn og barnabörn og búa og starfa í Norður-Devon.  Penny er bókahönnuður og listakona og nýtur útivistar við að sinna garðinum og húsdýrum og jafnframt að ganga um hæðir og strendur Devon og víðar.  Penny hefur nýlega lagt efni til bókarinnar, Caught up in Love (fanginn af elsku) sem gefin er út af BRF (Biblíulestrarfélaginu) í Bretlandi og er nú að skrifa bók um Þrenninguna og viðeigandi lífshætti.