Endurfundir og raunheimahittingar

Margir litlir gluggar á tölvuskjá hafa einkennt samskipti fólks undanfarið. Kyrrðarbænasamtökin hafa svo sannarlega tekið fjarfundabúnaði opnum örmum og haldið reglulega bænastundir og námskeið í gegnum Zoom.

Eitt námskeiðanna sem fór með þessum hætti er námskeiðið Lifandi logi þar sem um 50 manns hafa komið saman einu sinni í mánuði í allan vetur og krufið andlegu málin til mergjar. Námskeiðið hefur verið afskaplega gefandi og nándin sem skapaðist kom á óvart.

En fjarfundabúnaður kemur aldrei í stað þess að hittast í raunheimum, í holdinu, auglitis til auglitis. Þátttakendur í Lifandi logum tóku sig því til og hittust síðastliðinn laugardag í Grensáskirkju. Gleðin skein úr hverju andliti yfir því að eiga samverustund þar sem allir deildu sama rýminu. Auk þess að snæða saman og spjalla yfir kaffibolla var Kyrrðarbæn, Fagnaðarbæn og Biblíuleg íhugun iðkuð. Einnig fóru umræður fram í minni og stærri hópum.

Næsta haust fer af stað Lifandi logi 2 sem er framhaldsnámskeið af því námskeiði sem var nú að ljúka.

Nokkur námskeið fóru fram í Skálholti á vegum Kyrrðarbænasamtakanna á tímum heimsfaraldursins og þar á meðal var námskeið í Biblíulegri íhugun. Snemma í maí voru endurfundir þess hóps í Vídalínskirkju. Fólk fann stuðning í því að hittast og halda áfram ástundun Biblíulegrar íhugunnar sem það lærði í Skálholti. Meðfylgjandi mynd er frá því tilefni þegar iðkuð var Visio divina þar sem aðferð Biblíulegrar íhugunnar er notuð með mynd.