Therese M. Saulnier, umsjónarmaður Contemplative Outreach deildarinnar í New Jersey í Bandaríkjunum er látin 71 árs að aldri.

Mig setur hljóða, ég syrgi, syrgi einstaka konu, kæran vin og andlegan kennara.

Therese starfaði óslitið á vegum Contemplative Outreach Ltd. í meira en 30 ár. Hún var ein af máttarstólpum samtakanna. Hún var ógift og barnlaus og gaf allan sinn aukatíma frá vinnu til samtakanna líkt og hún væri að hlúa að sínu eigin barni. Hún vann af eljusemi, staðfestu og ekki síst af slíkum kærleika að eftir var tekið. Hún vílaði ekkert fyrir sér. Hún vílaði ekki fyrir sér að ferðast landshorna á milli ef það mætti vera til þess að leiða fólk á þá frelsandi braut sem Kyrrðarbænin er ásamt töfrasprotunum tveim, Fagnaðarbæninni og Fyrirgefningarbæninni.

Leiðir okkar lágu saman vorið 2008. Það ár ferðaðist ég til Bandaríkjanna til þess að taka þátt í námskeiði til kennsluréttinda í Kyrrðarbæninni. Therese var einn kennaranna. Einhver ólýsanleg taug myndaðist strax á milli okkar. Hennar leiðsögn varir enn í hjarta mínu. Enn lágu leiðir okkar saman um haustið sama ár þegar ég tók þátt í 9 mánaða námskeiði á vegum samtakanna. Therese var einnig þar ásamt 3 kennurum. Á því námskeiði kenndi hún m.a. Fagnaðarbænina og Fyrirgefningarbænina. Ég heillaðist. Ég heillaðist af því að finna leiðir sem hjálpuðu mér að hafa þor til þess að horfa í eigin rann í sátt og fyrirgefningu við sjálfan mig og Guð. Þegar ég síðan spurði hana hvort hún væri til í að ferðast til Íslands og halda námskeið um Fagnaðarbænina var svarið stutt og laggott, „Já“. Engar málalengingar né áhyggjur og hjólin tóku að snúast. Allt sem hún tók sér fyrir hendur var gert í fullu trausti á Guðs handleiðslu. Hingað til Íslands kom hún þrisvar sinnum. Árin 2010 og 2011 þar sem hún hélt 5 daga námskeið í Skálholti um Fagnaðarbænina og 2018 þar sem hún hélt 5 daga námskeið til kennsluréttinda í Ölveri. Tímamismunur virtist ekki hrjá hana og hún mætti til leiks hress, ákveðin, með skiplagið á hreinu og vel til höfð. Hún var afar lífleg í fasi og framkomu og brosið aldrei langt undan.

Það má segja að Therese  hafi verið örlagavaldur minn. Hennar kennsla greyptist í hjarta mér sem hafði umbreytandi áhrif. Ég er henni ævinlega þakklát.

Máttarstólpar og frumkvöðlar Contemplative Outreach í Bandaríkjunum, Thomas Keating, William Meningar og nú Therese M. Saulnier hafa horfið til hins eilífa ljóss. Öll hafa þau glætt og nært það fræ sem sáð var í íslenska jörð, fræ Kyrrðarbænarinnar, með nærveru sinni. Við tekur nýtt fólk með nýjar og frjóar áherslur bæði í Bandaríkjunum, hér á landi og um heim allan.

Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi votta fjölskyldu og vinum Theresu M. Saulnier dýpstu samúð vegna fráfalls hennar. Guð blessi þau öll. Guð blessi sálu þessarar einstöku konu. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Sigurbjörg Þorgrímsdóttir.

Fylgjast má með útför Therese í beinni útsendingu á Youtube laugardaginn 10. apríl kl. 15.00. Sr. Carl Arico, sem einnig er mikill íslandsvinur mun jarðsyngja. Hér er slóðin: