Kær vinur kyrrðarbænaiðkenda á Íslandi og um allan heim, sr. William Meninger, lést á sunnudagsmorgun 14. febrúar 2021.
 
William var trappistamunkur í St. Josephs Abby í Spencer Massachuetts. Það var vendipunktur í lífi hans þegar hann fann rykuga litla bók á bókasafni klaustursins árið 1974. Bókin var 14. aldar ritið The Cloud of Unknowing en höfundur þess er óþekktur. Bókin fjallaði um hugleiðslubæn (contemplative prayer) og varð grunnur að aðferð Kyrrðarbænarinnar sem William Meninger þróaði ásamt Thomas Keating og Basil Pennington. William var vel menntaður, vel máli farinn og góður kennari eins og þeir sem hlustuðu á fyrirlestra hans fengu að reyna.
William kom til Íslands árið 2008 fyrir tilstilli Richard McCambly. William hélt námskeið um enneagram, fyrirlestur í Háskóla Íslands og kyrrðardaga í Skálholti. Í október síðastliðnum hélt William námskeið fyrir Íslendinga í gegnum Zoom sem fjallaði um The Cloud of Unknowing en þeir fyrirlestrar snertu við mörgum. Hlusta má á upptöku af fyrirlestrunum hér.
William kenndi af ástríðu og sem dæmi um hversu mjög hann helgaði sig því er að laugardagskvöldið áður en hann lést hélt hann fyrirlestur um Matteusarguðspjall á Zoom þar sem hátt í 90 manns voru samankomnir til að hlýða á hann.
William skrifaði margar bækur sem vert er að lesa og má þar nefna The Loving Search of God og The Process of Forgivness.
Við kveðjum föður William með þakklæti í hjarta fyrir vináttu, uppörvun og fyrir að leiða okkur áfram í ástkærri leit að Guði.
Við látum fylgja með bænina út The Cloud of Unkowing sem var William svo hugleikin:

Almáttugi Guð, hjörtu vor eru opin fyrir þér,

öll þrá er þér kunn og ekkert er hulið fyrir augliti þínu.

Hreinsa þú hugsanir hjartna vorra með heilögum anda þínum

að vér fáum elskað þig af öllu hjarta og vegsamað þitt heilaga nafn sem bæri.

Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

Amen.