Biblíuleg íhugun gengur út á lestur biblíunnar með bæn að leiðarljósi

Í biblíulegri íhugun er biblían lesin með bæn að leiðarljósi

Helgina 4. – 7. febrúar 2021 verður boðið upp á kyrrðardaga og námskeið í Biblíulegri íhugun í Skálholti. Námskeiðið hefst með kvöldverði á fimmtudegi og lýkur kl. 14 á sunnudegi.

Biblíuleg íhugun, eða Lectio Divina, er aldagömul aðferð sem gengur út á að lesa Biblíuna með bæn að leiðarljósi. Á þessu námskeiði verður aðferðin kennd og iðkuð í margvíslegu samhengi.

Farið verður stuttlega yfir skólaaðferð biblíulegrar íhugunar en aðal áherslan verður á klaustursaðferðina. Atburðir daglegs lífs verða einnig skoðaðir í ljósi Lectio Divina og lagt stund á Visio Divina þar sem myndir eru notaðar í íhugun.

Ástundun Biblíulegrar íhugunar verður tengd útivist, dagbókarskrifum og ýmsu öðru. Þátttakendur deila reynslu sinni í minni eða stærri hópum eftir því sem við á.

Kyrrðin mun fá sitt rými með Kyrrðarbæn og hluti helgarinnar mun fara fram í þögn.

 

Námskeiðið er á vegum Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi í umsjón Bylgju Dísar Gunnarsdóttur og sr. Hennings Emils Magnússonar en þau eru með kennsluréttindi í Biblíulegri íhugun.

Námskeiðið er fyrir öll sem vilja auðga og efla bænalíf sitt og gefa biblíulestri aukna dýpt, hvort sem þau hafi reynslu af biblíulegri íhugun eða ekki. Reynsla af iðkun kyrrðarbænarinnar er kostur en ekki skylda.

Skálholt býður upp á einstaklings eða tveggja manna herbergi með sér baðherbergi. Gistingin er innifalin í gjaldinu ásamt fullu fæði.

Verð fyrir alla dagana með gistingu, fullu fæði og skráningargjaldi er kr. 49.500,-. Starfsmenntunarsjóðir sumra stéttarfélaga endurgreiða hluta af gjaldinu. Takmörkuð pláss eru í boði.

 

Skráning: www.skalholt.is eða í síma 486 8870

Nánari upplýsingar: Henning  663 6606 / henning@gardasokn.is eða Bylgja 661 7719 / kyrrdarbaen@kyrrdarbaen.is