Öll höfum við þörf fyrir eitthvað sem er okkur æðra.

Eitthvað sem við getum trúað á.

Árum saman hef ég verið að byggja upp sambandi mitt við Guð. Ég hef beðið bænir sem mér voru kenndar í æsku, beðið fyrir mér og mínu fólki. Stundum glaðst vegna þess að allt fór sem skyldi en líka grátið og nöldrað í Guði vegna þess að hlutirnir fóru öðruvísi en ég ætlaði. Ekki endilega verr en öðruvísi.

Þannig var þetta, ég talaði og Hann hlustaði. Ég stjórnaði samskiptum okkar nokkurn veginn. Og var bara þokkalega ánægð með það.

En eftir því sem árin liðu fór mig að langa verulega til að dýpka þetta samband. Gátum við ekki orðið ennþá betri vinir ég og Guð? Það stóð ekki á svari!

Ég komst í kynni við Kyrrðarbæn ( Centering Prayer) vorið 2008 þegar ég var í Skálholti á kyrrðardögum. Þar hafði þá verið námskeið alla vikuna um þessa bæn og munkur frá Bandaríkjunum William Meninger hafði verið að kynna bænina þar. Þegar við vorum að setja okkur inn í kyrrðina (þögnina) á föstudagskvöldinu kom Meninger og kynnti okkur lauslega þessa bænaraðferð. Í stuttu máli, ég kolféll fyrir bæninni. Þegar kyrrðardagar voru búnir fór ég heim og gúgglaði. Las og las. Leist æ betur á.

Og nú sit ég hér við tölvuna mína og langar að kynna þessa frábæru bænaraðferð fyrir ykkur svo að þið megið líka kynnast Guði á þennan dásamlega hátt. Að sitja með honum og leyfa honum að vinna í ykkur að vild, til að gera ykkur að betri manneskjum.

Það er erfitt fyrir mann sjálfan að dæma um það hvort einhver árangur hafi náðst þ.e. að maður sé þægilegri í umgengni eftir þessi samskipti við Guð. Aðrir verða að dæma um það.
En maður sjálfur verður óneytanlega var við umskiptin. Yfirvegun er orðið. Maður verður yfirvegaðri. Einnig finn ég mikla þörf fyrir þögnina. Kveiki oft ekki á útvarpi svo dögum skiptir. Vel meira hvað ég horfi eða hlusta á.

Nú er ég búin að fara tvisvar sinnum í Skálholt á kyrrðardaga þar sem áhersla er lögð á Kyrrðarbænina. Heil vika þar sem allt snýst um það að leyfa Guði að vinna, heila, byggja upp. Þetta er snilld. Nú er ég að verða búin að stilla mig inn á þessa bæn, læra og læra, í bráðum heila viku í viðbót!

Það sem þú þarf að gera er að mæta – Guð gerir rest!

Bænaraðferðin :

  1. Þú velur þér bænarorð. Stutt orð eins og t.d. : Jesús, María, Guð, faðir, Abba, friður, ljós , ást, himinn. Orðið sem þú veljur má ekki á nokkurn hátt trufla þig. Alls ekki vekja með þér hugsun. Bænarorðið er tákn um þann ásetning þinn að samþykka nærveru Guðs og starf hans innra með þér.
  2. Þú kemur þér þægilega fyrir með lokuð augu. Áður ertu búin að athuga hvort allt er ekki eins þægilegt og hugsast getur. Ekki of kalt, ekki of heitt. Ef þú ert stutt, eins og ég, gæti verið gott að setja púða undir fæturna svo þeir dingli ekki. Ef þaðer á hinn veginn gæti verið gott að setja púðann undir rassinn. Alla vega þá eiga fæturnir að hvíla á gólfinu. Bakið beint. Hendur í kjöltu. Þú lokar augunum ferð í hljóði og mjúklega með bænarorðið sem þú hefur valið þér 2-3 sinnum sem samþykki þitt fyrir því að Guð er hjá þér og ætlar að vinna með þig. Ekki sofna! Nú ef þú gerir það hefur Guð fullan skilning á því að þú hafir fulla þörf fyrir þennan auka blund. Þú rumskar og snýrð þér mjúklega að bænarorðinu aftur. Ekki dæma þig, hvorki fyrir hugsanir þínar né lúrinn. Því að Guð er ást og fyrirgefur þér allt.
  3. Þegar hugsanir, sem eru óhjákvæmilegar þar sem við erum lifandi, trufla okkur segjum við bænarorðið afar mjúklega og til að koma þessum husunum í burtu. En aðeins hugsunum sem ætla að sitja hjá okkur. Hinar fljóta bara áfram áreynslulaust eins og báturin á ánni.
  4. Að lokinn bænastund sem telur 20-30 mín. Höldum við kyrru fyrir svolitla stund. Ef við situm ein förum við með faðirvorið hægt hægt til að gefa okkur tíma til að koma til baka. Ef við erum í hópi þá sér sá/sú sem leiðir um faðirvorið ein/n.

20-30 mín. tvisvar á dag er það sem farið er fram á. Ég sit á morgnana áður en ég fer í vinnu. Sumir sitja í 40. mín þá. Mér gengur ver að finna tíma seinnipartinn. En það kemur!

Auðvelt? Prófaðu.

Fullri aðstoð heitið!

Kærleikskveðja

Magga, mamma, tengdamamma, amma vinkona og Guðsbarn