Fyrsta vinnan sem fornleifafræðingar framkvæma við forleifagröft er að hreinsa efsta lagið á haugnum. Þeir hreinsa í burtu illgresi, steina og hvað eina sem síðasta þjóðmenning skildi eftir sig. Öskulag er hreinsað burt og hvers kyns leifum. Mósaik og pottar koma í ljós og fundurinn er sendur til þjóðminjasafnsins. Það upphefst mikil gleði með fundinn og þeir taka sér hlé frá störfum um hríð. Síðan hefst gröfturinn að nýju. Ferlið tekur mörg ár. Lög fyrir lög þar sem fornleifafræðingarnir vinna sig niður, menningu eftir menningu alveg niður á steinöld.

Heilagur andi vinnur með svipuðum hætti og fornleifafræðingarnir. Hann mætir okkur hér og nú á hvaða tímaskeiði sem er. Hann byrjar á því sem er að trufla okkur í dag t.d. í samskiptum okkar við annað fólk. Við öðlumst ákveðið frelsi og förum að ástunda dygðugt líferni. Við gætum fundið okkur í lestri Biblíunnar. Trúarlíf okkar, kirkjusókn, andlegur lestur, allt þetta verður mjög gefandi. Þetta tímabil er oft kallað „vorið á hinu andlega ferðalagi.“ Að fæðast að nýju hefur svipaða merkingu í kristnum skilningi. Mistökin eru sú að halda að með þessu sé ferðin á enda. Hún hefur jafnvel varla hafist ennþá. Þetta er aðeins fyrsta stigið. Þetta stig er svo yndislegt að fólk er mjög tregt að sleppa því.

Á vissum tímapunkti gæti heilagur andi ákveðið það að vorið hafi enst nógu lengi. Heilagur andi fer að grafa niður á næsta lag. Það er þannig að ætlunarverk heilags anda er að heila lífshlaup okkar, lag fyrir lag, þar sem hann hendir út rusli og því sem hefur heft líf okkar. Heilagur andi virðist byrja á vinnu sinni frá þeim aldri sem við erum í dag og allveg niður í hvítvoðunginn, jafnvel niður í móðurkvið. Hann grefur sig niður á þann stað þar sem erfiðar æskuminningar eru í dái gleymskunnar. Tilfinningar höfnunar, óöryggis, skortur á ástúð og líkamlegar misbeitingar voru fyrst upplifaðar. Tilfinningaleg viðbrögð sem rísa upp í meðvitundina eru reiði, ótti og eða sorg. Það er vegna þess að það eru þær tilfinningar sem barnið upplifði á þeim tíma. Í stað þess að upplifa vorið í þessari andlegu iðkun förum við að upplifa að okkur fer að líða illa. Hugsunin um það að Guð hafi yfirgefið okkur fer að gera vart við sig. Setning eins og: Þessi andlega leið er ekki fyrir mig. Það er stöðug tilhneiging hjá okkur í þá átt að halda að við höfum gert eitthvað rangt en við getum ekki fundið hvað það getur verið. Vonleysi nær taki á okkur.

Guð yfirgefur okkur aldrei. Hvernig getur hann gert það? Guð lifir í okkur. Sköpunarverkið heldur áfram. Það sem Guð hefur gert í þessari stöðu er einfaldlega að hann hefur farið niður á næsta lag þar sem hann býður eftir okkur á leið okkar til þroska og trausts. Guð er alltaf einu skrefi á undan okkur í áttina að kjarnanum. Í hvert sinn er við höldum að við höfum fundið hann rennur hann okkur úr greipum. Vöxtur er áskorun ritningarinnar. Stærsta syndin í Nýja testamentinu er að neita að þroskast og velja þess í stað vera föst í sama farinu.

Hin guðlega meðferð heldur áfram í okkar daglega lífi. Guð færir okkur fólk og viðburði inn í líf okkar og tekur það frá okkur aftur til þess að sýna okkur ýmislegt í fari okkar sjálfra. Íhugunarbænin og hið daglega líf vinnur saman í því að ná settu marki ef við höfum viljann til þess.

(Thomas Keating, Intimacy with God, an Intoduction to Centering Prayer, St. Benedict´s Monastery Snowmass, Colorado, 2009. bls. 53. Þýð: Sigurbjörg Þorgrímsdóttir).

 

Líkingin um hauginn og fornleifagröftinn