Dagur Fannar Magnússon

Núvitund er sögð fela það í sér að upplifa augnablikið í fullnustu sinni án þess að láta hugsanir og tilfinningar úr fortíð og framtíð trufla sig og án þess að dæma upplifunina á nokkurn hátt. Núvitund er ekki aðeins bundin við íhugunaraðferðir heldur er íhugun í raun æfing í núvitund. Líkja mætti þessu við það að fara í ræktina og stunda markvissa hreyfingu til þess að styrkja líkamann. Með íhugun erum við að þjálfa hugann til þess að vera í núinu. Til eru margskonar íhugunaraðferðir til þess að rækta þessa tilteknu vitund sem þróast svo út í það að vera núvist. Núvist er eiginleiki sem hjálpar okkur að dvelja og vera í núinu. Kyrrðarbæn er ein þessara íhugunaraðferða sem styrkja núvitund bæði í íhugun og í daglegu amstri. Rannsóknir á núvitundaraðferðum, þá sérstaklega Núvitundar grundvallaðri streitu minkunn (e. MBSR, Mindfulness-Based Stress Reduction), hafa sýnt fram á að aðferðirnar geti meðal annars stuðlað að bættu líkamlegu og andlegu heilbrigði. Þá hefur til dæmis verið sýnt fram á að við getum virkjað heilann um 10 – 15% umfram það sem við gerum venjulega með því að stunda núvitund. Hvort sem um er að ræða bein tengsl eða ekki hefur einnig verið sýnt fram á bætta námsframmistöðu og að hægt sé að hægja á heilahrörnunarsjúkdómum og elliglöpum. Við ástundun núvitundar dregur heilinn úr framleiðslu streituhormóna og getur þar af leiðandi hjálpað fólki að vinna úr þunglyndi, streitu og kvíða. Þá er núvitund einnig sögð hafa jákvæð áhrif á ónæmis-, hjarta- og æðakerfi. Hér að framan eru aðeins talin upp nokkur dæmi mögulegra jákvæðra áhrifa núvitundar á líf einstaklings og enn er verið að gera fjölda rannsókna.

Þar sem Kyrrðarbænin er mjög áþekk öðrum núvitundaræfingum og mjög sambærileg iðkun Núvitundar grundvallaðri streitu minkunn er ekki ólíklegt að hún geti haft sambærileg áhrif. Kyrrðarbænin er stunduð þannig að viðkomandi velur sér eins til tveggja atkvæða bænaorð sem tákn um ásetning sinn, að hvíla í nærveru Guðs. Biðjandinn kemur sér svo þægilega fyrir í ákveðinn tíma og snýr sér blíðlega að bænarorðinu þegar hugsanir og tilfinningar taka hann frá ásetningnum.  Í ástundunni getur komið að því að hugsanir og tilfinningar leita ekki lengur á mann og maður nær að slíta sig frá veraldlegum áhyggjum. Með öðrum orðum nær maður að tæma hugann og Guð kemst að og fyllir upp í það tóm sem áður voru hugsanir og tilfinningar. En er þá aðferð Kyrrðarbænarinnar bæn? Þegar leitað er svara við þessari spurningu er áhugavert að líta til athugana Friedrich Heiler á bænum. Hann flokkaði þær niður í sjö flokka og þar segir hann frá bænaflokki sem kallast Bæn hins mikilfenglega trúarlega persónuleika (e. the prayer of great religious personalities) en þær skiptast í tvo flokka. Annar flokkurinn, sem er kallaður „dulrænn“, snýr fyrst og fremst að því þegar biðjandinn snýr sér frá heiminum, hinu hlutlæga og jafnvel sjálfinu, að óendanleikanum, þar sem markmiðið er að vera í alsælli einingu (e. ecstatic union) með Guði. Reikandi hugsunum er leift að dvína og hverfa og er biðjandinn þá móttækilegri fyrir nærveru Guðs. Samkvæmt Heiler þarf íhugun að fela í sér meðvitund um nærveru Guðs svo hún sé bæn. Þó er erfiðara að fullyrða um það hvort að allar íhugunaraðferðir sem leiða mann inn í núvitund séu bænir í þessum skilningi. Aftur á móti er fólk sem stundar íhugun mjög reglulega (sama af hvaða gerð hún er) oft sammála um að það upplifi eitthvað sem er stærra, meira og ekki af þessum heimi. Það hefur verið kallað Verandinn, Guð, Brahman eða einfaldlega eitthvað sem fólk getur ekki lýst með orðum. Kyrrðarbænin passar nokkuð vel inn í þessa lýsingu Heilers. Fólk stundar Kyrrðarbæn af því að hún er hluti af trú og trúarhefð þess. Þrátt fyrir að hún sé nokkuð ný af nálinni þá á hún djúpar rætur í sambærilegu bænahaldi, allt til Eyðimerkurfeðranna og mæðranna, í gegnum reglu Benediktarklaustranna, Teresu frá Avila, til bókarinnar The Cloud of Unknowing (frá 14. öld) og fleiri kristinna dulspekihefða. Kyrrðarbænin gæti því verið ein leið til þess upplifa Guðsríki hér og nú ásamt því að upplifa samfélag og einingu með Guði. Það gæti nú verið efni í aðra grein og ríflega það.

 Þessi grein er unnin upp úr BA ritgerð minni „Guðsríki er innra með yður og meðal yðar: Hvað er líkt og ólíkt með kristinni kyrrðarbæn og vestrænni núvitund?“ http://hdl.handle.net/1946/27366 Dagur Fannar Magnússon